Jimmy Walker greindist með Lyme sjúkdóm

Eins og áður hefur verið greint frá þurfti Dustin Johnson að draga sig úr leik á Masters mótinu vegna meiðsla sem hann hlaut þegar hann féll úr stiga stuttu fyrir mótið. Johnson var hinsvegar ekki sá eini sem glíma þurfti við meiðsli eða önnur heilsufarsvandamál, en sama dag og hann féll úr stiganum greindist Jimmy Walker með Lyme sjúkdóm. Walker átti einmitt að spila í sama holli og Dustin fyrstu tvo hringina.

Nú tveimur vikum seinna hefur Walker greint frá því að þetta sé ástæðan fyrir þreytu sem hann hefur glímt við undanfarna mánuði. Walker kveðst hafa fundið fyrir einkennunum síðan í lok nóvember á síðasta ári.

„Hversu lengi ég hef verið með þetta veit ég ekki. Ég veit að mér hefur ekki liðið vel frá því í lok nóvember. Ég hef verið að ræða við lækna og reynt að finna út hvað er best að gera. Þetta lýsir sér eins og flensa. Enginn styrkur og maður á bara ekkert inni"

Þrátt fyrir að hafa glímt við þessi veikindi kláraði Walker Masters mótið og endaði jafn í 18. sæti. Walker náði einnig niðurskurðinum á sjö mótum í röð og hefur einu sinni lent í topp 10 efstu sætunum af þeim tólf mótum sem hann hefur tekið þátt í á þessu tímabili. 

Opna Valero Texas mótið, sem hefst í dag, verður fyrsta mótið sem Walker tekur þátt í eftir Masters mótið, en hann vann einmitt það mót árið 2015.