Jim Furyk verður fyrirliði Bandaríkjanna í Ryder bikarnum 2018

Bandaríkjamaðurinn Jim Furyk var í dag tilkynntur sem næsti fyrirliði Bandaríkjanna í Ryder bikarnum sem fram fer í París á næsta ári.

Furyk hafði áður gefið það út að ef honum yrði boðið starfið myndi hann segja já: „Hvort sem það yrði 2018, 2020, 2022 eða hvenær sem er. Ég held að allir myndu segja já.“

Þetta verður í fyrsta sinn sem Furyk mun sinna fyrirliðastarfinu en hann hefur alls 9 sinnum leikið í keppninni ásamt því að hafa verið varafyrirliði í fyrra.

Lið Bandaríkjanna hafði betur gegn liði Evrópu í fyrra sem batt enda á 6 ára sigurgöngu Evrópu manna í mótinu og þótti Furyk standa sig vel sem varafyrirliði.

Í desember var Thomas Björn valinn fyrirliði Evrópu.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is