Jim Furyk mætir aftur til leiks eftir sex mánaða fjarveru

Jim Furyk snýr aftur á PGA mótaröðina um helgina þegar að hann verður á meðal þátttakenda á Genesis Open mótinu. Þetta verður fyrsta PGA mót Furyk í sex mánuði, en hann hefur verið að glíma við meiðsli í öxl.

Síðasta ár hjá Furyk var erfitt og náði hann ekki að halda þátttökurétti sínum á mótaröðinni og komst því inn í þetta mót í gegnum svokallað styrktaraðilaboð. Því er ekki ljóst hversu mikið hann verður með á þessu ári.

Furyk er á meðal 50 efstu yfir þá kylfinga sem hafa þénað mest í sögu PGA mótaraðarinnar, því hefði hann getað nýtt sér það. Reglur mótaraðarinnar kveða á um það að kylfingur sem er á meðal 50 tekjuhæstu í sögu mótaraðarinnar má í eitt skipti fá sjálfkrafa þátttökurétt á mótaröðinni. Í viðtali fyrir mótið sagði Furyk að hann hefði ekki viljað taka þá ákvörðun í fyrra þar sem hann vissi ekki hvernig hann yrði á nýju ári.

„Ég var ekki viss hvort ég yrði heill heilsu. Þú þarft að ákveða hvort þú viljir nýta þér þetta ákvæði innan sjö til tíu daga eftir Tour Championship mótið. Á þeim tímapunkti var ég meiddur og var ekki að spila.“