Jim 'Bones' Mackay mætir aftur til leiks um næstu helgi

Fyrrum kylfuberi Phil Mickelson, Jim 'Bones' Mackay, hefur tilkynnt að hann ætli að snúa aftur á pokann, í það minnsta fyrir eitt mót.

Kylfuberi Justin Thomas, Jimmy Johnson hefur verið að glíma við meiðsli undanfarnar vikur og hefur Thomas því fengið 'Bones' til þess að vera á pokanum allavegana næstu helgi þegar Sony Open mótið fer fram, en Thomas á titil að verja.

Johnson þurfti að draga sig til hlés eftir annan hringinn á Sentry Tournament of Champions. Þá tók faðir Thomas við pokanum og verður með honum á lokadeginum líka. Eftir þriðja hringinn sagði Mike Thomas að þetta hefði verið erfitt en gaman.

„Fæturnir á mér eru þreyttir,“ sagði Mike Thomas, sem bar síðast fyrir son sinn á 2016 QBE Shootout mótinu. „Það er samt alltaf gaman að gera svona með syni sínum.“

Reiknað er með að Johnson verði frá í um mánuð og því ljóst að einhver þarf að vera á pokanum hjá Thomas. 'Bones' verður í það minnsta um næstu helgi, en hver veit hvort að hann ílengist eitthvað. Sjálfur hefur 'Bones' verið að vinna fyrir NBC/Golf Channel.

Eftir að ljóst varð að Mike Thomas missti vinnu sína sagði hann að það væri fyrir bestu.

„Ég er glaður með það,“ sagði Mike Thomas við það að missa vinnuna. „Ég er á afturendanum út á velli.“