Jason Day getur komist í elítuhóp með sigri í dag

Aðeins rúmri viku eftir að hafa þurft að draga sig úr leik á Arnold Palmer Invitational mótinu er Jason Day aðeins þremur höggum á eftir Jon Rahm fyrir lokahring Players meistaramótsins.

Takist Day að sigra í kvöld kemst hann í sannkallaðan elítuhóp af kylfingum sem hafa sigrað mótið oftar en einu sinni. Kylfingarnir sem nú þegar hafa unnið mótið oftar en einu sinni eru þeir Jack Nicklaus, Hal Sutton, Fred Couples, Davis Love III og Tiger Woods. Aðeins Nicklaus hefur sigrað á mótinu þrisvar sinnum.

Day sagði eftir hring gærdagsins að spilamennska hans þessa helgina hefði komið honum skemmtilega á óvart.

„Fyrir viku var ég að reyna standa uppréttur og sveifla kylfunni. Þannig það kemur skemmtilega á óvart að eiga möguleika á sigri. Ef ég get klárað mótið efstur, þá væri það flottur viðsnúningur hjá mér, sérstaklega ef tekið er mið af því hvernig ég var fyrir viku.“