J. J. Henry í 500 móta klúbbinn á PGA mótaröðinni

Þegar Sony Open mótið fer fram í vikunni mun Bandaríkjamaðurinn J. J. Henry hefja leik í sínu 500. móti á PGA mótaröðinni. Henry er 145. kylfingurinn í sögu mótaraðarinnar sem nær þeim árangri samkvæmt heimildum pgatour.com.

Henry, sem er 42 ára gamall, verður einn þriggja kylfinga sem enn leika á PGA mótaröðinni sem hefur náð 500 mótum fyrir 45 ára aldurinn. Hinir tveir eru Stewart Cink (544 mót, 44 ára) og Charles Howell III (502 mót, 38 ára).

Á ferli sínum hefur Henry sigrað á þremur mótum og endað fimm sinnum í öðru sæti. Síðasti sigur hans kom árið 2015 á Reno-Tahoe Open sem í dag heitir Barracuda Championship. 

J.J. Henry:  Árangur í fyrstu 499 mótum sínum á PGA mótaröðinni

Sigrar

3

Annað sæti

5

Þriðja sæti

3

Topp 10

38

Topp 25

94

Komist í gegnum niðurskurðinn

317

Ekki komist í gegn

179

Dæmdur úr leik

1

Hætt leik

4

Heildarverðlaunafé

16.188.724 dollarar

Ísak Jasonarson
isak@vf.is