Íslendingarnir komust ekki áfram í Skotlandi

Þeir Aron Snær Júlíusson, Bjarki Pétursson og Gísli Sveinbergsson luku í dag leik á Opna breska áhugamannamótinu. Að þessu sinni var leikið á Royal Aberdeen vellinum og Murcar Links. Allir strákarnir léku á Royal Aberdeen vellinum í dag og er ljóst að enginn af þeim kemst áfram í holukeppnina.

Fyrir daginn var vitað að þeir þyrftu á góðum hring að halda ætluðu þeir sér áfram. Gísli var á fimm höggum yfir pari, Bjarki á sex höggum yfir pari og Aron á átta höggum yfir pari.

Gísli var í góðum málum eftir níu holur í dag á tveimur höggum undir pari. Hann gaf aftur á móti mikið eftir á síðari níu holunum en þær lék hann á fimm höggum yfir pari. Hann endaði því hringina tvo á átta höggum yfir pari.

Bjarki lék stöðugt golf í allan dag. Hann fékk fjóra skolla, tvo fugla og restina pör og endaði því hringinn á 73 höggum. Líkt og Gísli endaði hann hringina tvo á átta höggum yfir pari og voru þeir jafnir í 96. sæti.

Aron var lengi vel á tveimur höggum undir pari á hringnum í dag. En slæmur endir gerði það að verkum að hann endaði hringinn 72 höggum eða tveimur höggum yfir pari. Hann endaði hringina tvo á níu höggum yfir pari og jafn í 118. sæti.

Til að komast áfram hefðu strákarnir þurft að enda hringina tvo á samtals sex höggum yfir pari og því ljóst að þeir komast ekki áfram að þessu sinni.

Hérna má sjá stöðuna í mótinu.