Íslandsmót golfklúbba: GKG sigraði í karlaflokki

Íslandsmóti golfklúbba lauk nú seinni partinn á Kiðjabergsvelli og var það Golfklúbbur Kópavogs og Garðabæjar sem stóð uppi sem sigurvegari í 1. deild karla eftir sigur á Golfklúbbi Reykjavíkur. Það var síðan Golfklúbbur Mosfellsbæjar sem hafði betur í leiknum um þriðja sætið á móti Golfklúbbnum Keili.

GKG og GR mættust í riðlunum í gær og þá fór svo að GKG hafi betur 5-0. Úrslitaleikurinn var öllu meira spennandi, en það var GKG sem hafði betur og í þetta skiptið 3-2. 

GKG sigraði þrjá af fjórum tvímenningum. Það voru þeir Aron Snær Júlíusson, Birgir Leifur Hafþórsson og Ragnar Már Garðarsson sem fengu stigin fyrir GKG. GR sigraði fjórmenningin og einn tvímenning. Í fjórmenningnum voru það þeir Stefán Már Stefánsson og Viktor Ingi Einarsson sem sigruðu og Andri Þór Björnsson sigraði í tvímenning.

Í leiknum um þriðja sætið höfðu GM betur á móti GK, 4-1. GM sigraði fjórmenninginn og þrjá af tvímenningunum.

Það voru lið Golfklúbbs Fjallabyggðar og Dalvíkur og lið Golfklúbbs Kiðjabergs sem enduðu í sjöunda og áttunda sæti og leika því í 2. deild að ári.

Öll nánari úrslit má sjá hér.