Íslandsmót golfklúbba: GR sigraði í kvennaflokki

Íslandsmóti golfklúbba lauk nú fyrir stuttu á Garðavelli á Akranesi og var það Golfklúbbur Reykjavíkur sem bar sigurorð af Golfklúbbnum Keili 3-2 eftir spennandi úrslitaleik. Það var svo Golfklúbbur Kópavogs og Garðabæjar sem hafði betur í leiknum um þriðja sætið á móti Golfklúbbi Suðurnesja.

Báðir klúbbarnir voru ósigraðir fyrir daginn og því ljóst að það lið sem ynni færi taplaust gegnum mótið. GR vann tvo leiki nokkuð örugglega og GK vann tvo leiki einnig nokkuð örugglega. Fjórmenningur GR sigraði sinn leik 3/2 og sigraði Berglind Björnsdóttir sinn leik 4/3. Hjá GK voru það Helga Kristín Einarsdóttir og Signý Arnórsdóttir sem sigruðu sína leiki, 3/2 annars vegar og 7/6 hins vegar.

Það var því síðasti leikurinn, á milli Guðrúnar Brár Björgvinsdóttur og Ragnhildar Kristinsdóttur, sem réði úrslitum og þurftu þær að leika allar 18 holurnar. Svo fór að lokum að Ragnhildur hafði betur 1/0 og þar með tryggði hún GR sigurinn.

Í leiknum um þriðja sætið hafði GKG betur gegn GS, 4-1.

Öll úrslit má nálgast hérna.