Íslandsmót golfklúbba: GR leikur til úrslita í karla- og kvennaflokki

Annar dagur Íslandsmóts golfklúbba fór fram í dag. Leikið var víðsvegar um landið en 1. deild kvenna fór fram á Akranesi og fyrsta deild karla í Kiðjabergi. Golfklúbbur Reykjavíkur leikur til úrslita í báðum flokkum.

Í 1. deild kvenna hafa GK og GR unnið alla sína leiki. GK mætti GS í undanúrslitum og var sá sigur aldrei í hættu. GK hafði betur 4-1. Í hinum undanúrslitaleiknum lék GR gegn GKG og fór hann einnig 4-1. GR hefur titil að verja í mótinu og verður því fróðlegt að sjá úrslitaleikinn á morgun sem er sá sami og í fyrra.

Í 1. deild karla léku GM, GR, GKG og GK í undanúrslitunum. GK, sem hafði titil að verja í mótinu, tapaði gegn GR 4-1. GKG hafði svo betur gegn GM í hinum leiknum 4,5-0,5 þar sem tveir leikir fóru alla leið í bráðabana. Birgir Leifur Hafþórsson hafði betur gegn Krisjáni Þóri Einarssyni á 21. holu og Ragnar Már Garðarsson vann Ragnar Má Ríkarðsson á 19. holu.

Úrslitaleikir mótanna fara fram á morgun, sunnudag. Hægt er að sjá úrslit allra leikja með því að smella á tenglana hér fyrir neðan.

1. deild karla

1. deild kvenna

Ísak Jasonarson
isak@vf.is