Íslandsmót golfklúbba: GKG og GK komin í undanúrslit í fyrstu deild kvenna

Íslandsmót golfklúbba hófst í dag víðsvegar um landið. Fyrsta deild kvenna er leikin í Hafnarfirði að þessu sinni hjá Golfklúbbnum Keili. Tvö lið hafa nú þegar tryggt sér farseðilinn í undanúrslit eftir leiki dagsins en á morgun ræðst hvaða tvö önnur lið komast áfram.

Í A-riðli eru aðeins þrjú lið og hefur því eitt lið þurft að sitja hjá í hverri umferð. Eftir fyrstu tvær umferðirnar hafa Golfklúbbur Reykjavíkur og Golfklúbbur Mosfellsbæjar unnið sér inn eitt stig á meðan Golfklúbbur Suðurnesja er með núll stig. Á morgun mætast GR og GS og þá ræðst hvaða lið komast áfram.

Í B-riðli hafa Golfklúbbur Kópavogs og Garðabæjar og Golfklúbburinn Keilir unnið báða sína leiki og eru þau því búin að tryggja sig áfram í undanúrslitin sem hefjast eftir hádegi á morgun. GKG og GK mætast á morgun og ræðst þá hvort liðið vinnur riðilinn.

Öll nánari úrslit má sjá hérna.