Í beinni: Birgir Leifur á lokahringnum í Ástralíu

Birgir Leifur Hafþórsson er meðal keppenda á Ástralska PGA meistaramótinu sem fer fram á Evrópumótaröðinni í golfi. Eftir þrjá hringi er Birgir á þremur höggum yfir pari og jafn í 67. sæti.

Birgir Leifur fer af stað klukkan 7:40 að staðartíma á lokahringnum eða klukkan 21:40 að íslenskum tíma. Hann hefur leik á 10. teig.

Fylgst verður með skori Birgis í beinni hér á Kylfingi en hægt er að skoða stöðuna í mótinu með því að smella hér.

Heimamaðurinn Jordan Zunic er með þriggja högga forystu eftir þrjá hringi í mótinu á 17 höggum undir pari. Masters sigurvegarinn, Sergio Garcia, er meðal efstu kylfinga á 8 höggum undir pari.

Uppfært:

Fugl á fyrstu tveimur holunum: Birgir Leifur er búinn með tvær holur og er búinn að fá tvo fugla. Hann er búinn að fara upp um 12 sæti fyrir vikið og er nú í 55. sæti.

Skolli á þriðju holu: Birgir Leifur fékk skolla á þriðju holuna sem er 513 metra löng par 5 hola. Hann er nú í 61. sæti á 2 höggum yfir pari í heildina.

Ekkert par hingað til: Eftir fjórar holur er Birgir Leifur ekki enn kominn með par! Hann er kominn með þrjá fugla og einn skolla en þriðji fugl dagsins kom á fjórðu holunni sem er 411 metra löng par 4 hola. Frábær byrjun.

-1 eftir 6 holur: Fyrsta par dagsins kom á 6. holu sem er par 5 hola. Þar áður hafði Birgir fengið þrjá fugla og tvo skolla. Birgir er búinn að koma sér upp um 8 sæti á hringnum í dag og situr í 59. sæti.

Lék fyrri níu á parinu: Skolli á 18. holu (9. holu dagsins) þýðir að Birgir Leifur leikur fyrri níu holurnar á parinu. Hann hefur fengið þrjá fugla, þrjá skolla og þrjú pör á hringnum hingað til.

-1 eftir 14 holur: Birgir Leifur hefur leikið stöðugt golf undanfarnar holur. Eftir fugl á 11. holu dagsins hefur hann fengið þrjá fugla í röð og er á einu höggi undir pari á seinni hluta hringsins. Hann er sem stendur í 62. sæti á 2 höggum yfir pari í heildina.

Fugl og tveir skollar: Birgir Leifur hefur lokið leik á sínu fyrsta móti á Evrópumótaröðinni frá árinu 2011. Hann komst í gegnum niðurskurðinn og endaði mótið í 62. sæti á 3 höggum yfir pari í heildina. Birgir getur borið höfuðið hátt eftir frammistöðuna enda margir sterkir kylfingar sem komust ekki í gegnum niðurskurðinn. Fyrir árangurinn fær Birgir 2.242 evrur. 


Skorkort Birgis.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is