Hver stendur uppi sem sigurvegari í risamótum ársins 2018 - Opna mótið

Þó svo að 2017 sé ekki liðið þá eru fjölmiðlar vestanhafs samt sem áður farnir að velta fyrir sér hverjir eru líklegir til þess að standa uppi sem sigurvegarar í risamótum ársins 2018. Að venju er röðin þannig að Masters mótið er leikið fyrst, síðan Opna bandaríska meistaramótið, Opna mótið þar næst og að lokum er það PGA meistaramótið. PGA.com tók saman lista yfir þá kylfinga sem þykja hvað líklegastir til þess að vinna hvert mót og ætlar Kylfingur.is að birta spá þeirra næstu dagana.

Þriðja risamótið er að sjálfsögðu Opna mótið. Opna mótið er elst mótanna fjögurra, en það hóf göngu sína árið 1860.

Árið 2018 verður mótið haldið á Carnoustie vellinum og fer fram dagana 19.-22. júlí. Þetta verður í áttunda skipti sem mótið verður haldið á þessum sögufræga velli, en síðast var það haldið þarna árið 2007 þegar Padraig Harrington stóp uppi sem sigurvegari eftir umspil við Sergio Garcia.

Sigurvegari: Sergio Garcia

Af hverju: Garcia tókst loksins að sigra á sínu fyrsta risamóti á árinu sem er að líða þegar að hann stóð uppi sem sigurvegari á Masters mótinu. Síðan þá er hann búinn að gifta sig og á nýja árinu mun hann eignast barn með konu sinni. Það má því segja að lífið leiki við Garcia þessa dagana.

Af fjórum risamótunum hefur Opna mótið alltaf reynst Garcia hvað best. Hann hefur 10 sinnum verið á meðal 10 efstu, og eins og kom fram hér áðan endaði hann í öðru sæti árið 2007 eftir tap í umspili. 

Það er því erfitt að horfa fram hjá Garcia þegar kemur að því að spá fyrir um sigurvegara á Opna mótinu árið 2018.