Howell III tryggði sér sæti á Masters mótinu

Charles Howell III batt í gær enda á 11 ára bið eftir sigri á PGA mótaröðinni þegar hann sigraði á RSM Classic mótinu.

Með sigrinum gulltryggði hinn 39 ára gamli Howell III sér sæti á Masters mótinu sem fer fram í apríl á næsta ári.

„Ég hugsaði um það [Masters] fyrr í vikunni þegar ég var í forystu,“ sagði Howell, sem fagnaði sigri eftir bráðabana gegn Patrick Rodgers. „Þegar ég setti sigurpúttið í holu hugsaði ég ekki strax til þess því mér var frekar létt en stuttu seinna fór ég að hugsa um Masters.“

Howell III hafði 16 sinnum endað í 2. sæti frá því hann sigraði síðast árið 2007. Á laugardaginn byrjaði hann lokahring mótsins ekki vel þar sem hann fékk skolla og tvöfaldan skolla á fyrstu holunum og var hann farinn að efast aðeins um möguleika sína á sigri.

„Ég hugsaði að ég hefði séð þessa mynd áður og ég vissi hvernig hún myndi enda,“ sagði Howell um byrjunina. Sem betur fer fyrir Howell III spilaði hann nánast óaðfinnanlegt golf eftir slæma byrjun og fagnaði sínum þriðja sigri á PGA mótaröðinni.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is