Hoffman með þriggja högga forystu | Tiger jafn í 5. sæti

Bandaríkjamaðurinn Charley Hoffman er með þriggja högga forystu á Hero World Challenge þegar mótið er hálfnað. Hoffman hefur leikið hringina tvo samtals á 12 höggum undir pari en hann var í miklu stuði í dag.

Hoffman fékk alls 12 fugla á hring dagsins og þrjá skolla til viðbótar. Hann kom inn á 9 höggum undir pari og var einungis höggi frá vallarmeti sem Justin Rose setti á vellinum í Albany.

Spilamennska Tiger Woods hefur vakið mikla athygli en hann er samtals á 7 höggum undir pari eftir tvo hringi. Hann lék annan hringinn á 4 höggum undir pari og virtist eiga meira inni. Fróðlegt verður að sjá hann spila um helgina og spurning hvort leikformið fari að segja til sín.

Jordan Spieth og Tommy Fleetwood deila öðru sæti mótsins á 9 höggum undir pari. Þeir eru höggi á undan Justin Rose sem er fjórði. 

Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is