Hlýnun jarðar hefur líka áhrif á golfvelli

Eins og rannsóknir undanfarinna ára hafa sýnt fram á er jörðin að hlýna, þá aðallega vegna framgangs mannfólksins. Áhrifanna gætir víðsvegar og eru golfvellir ekki undanskildir í þeim efnum.

Eflaust eru margir sem halda að með hlýnandi veðri verði hægt að spila meira golf, en málið er ekki alveg svo einfalt.

Rannsókn sem var birt af Háskólanum í Dundee árið 2016 hefur sýnt að sjórinn hefur færst um 70 metra nær bænum Montrose í Skotlandi á síðustu 30 árum. Golfvöllur bæjarins er Montrose Medal og er þetta fimmti elsti völlurinn í heiminum, en hann var stofnaður árið 1562. 

Þó svo að völlurinn hafi aldrei hýst Opna mótið þá hefur úrtökumót fyrir Opna mótið verið leikið á vellinum, ásamt skoska atvinnumannamótinu, skoska áhugamannamótinu og Opna breska áhugamannamótinu undir 18 ára.

Chris Curnin, stjórnandi klúbbsins segir að hlýnun jarðar sé nú þegar farin að setja mark sitt á þennan sögufræga golfvöll.

„Með hækkandi sjávarmáli og þegar ströndin hverfur, þá getum við ekkert gert. Hlýnun jarðar er nú þegar farin að éta burt völlinn okkar.“

Árin 2016 og 2017 var talið að allt að 20% minna golf væri spilað á golfvöllum kringum Glasgow en 10 árum áður.