Henning Darri sigraði eftir bráðabana í KPMG-Hvaleyrarbikarnum

Henning Darri Þórðarsson fagnaði í dag sínum fyrsta sigri á Eimskipsmótaröðinni í golfi eftir æsispennandi lokahring í KPMG-Hvaleyrarbikarnum sem fór fram hjá Golfklúbbi Keilis um helgina.

Henning Darri lék hringina þrjá samtals á 4 höggum undir pari sem var það sama og Kristján Þór Einarsson gerði. Þeir héldu því í bráðabana þar sem Henning Darri hafði betur á fyrstu holu.

Fyrir lokahringinn var Keilismaðurinn Rúnar Arnórsson í forystu á 3 höggum undir pari. Hann lék lokahringinn á pari vallarins eða 71 höggi sem dugði ekki til sigurs. Rúnar endaði í 3. sæti.

Birgir Björn Magnússon endaði í 4. sæti á 2 höggum undir pari, höggi á eftir Rúnari og höggi á undan Ingvari Andra Magnússyni sem endaði í 5. sæti.

Atvinnukylfingarnir Andri Þór Björnsson og Guðmundur Ágúst Kristjánsson röðuðu sér svo í 6. og 7. sæti.

Staða efstu manna:

1. Henning Darri Þórðarson, GK, -4
2. Kristján Þór Einarsson, GM, -4
3. Rúnar Arnórsson, GK, -3
4. Birgir Björn Magnússon, GK, -2
5. Ingvar Andri Magnússon, GKG, -1
6. Andri Þór Björnsson, GR, par
7. Guðmundur Ágúst Kristjánsson, GR, +1

Hér er hægt að sjá lokastöðuna í mótinu.


Kristján Þór Einarsson endaði annar.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is