Heimslisti kvenna: Valdís Þóra fer upp um 20 sæti

Heimslisti kvenna var uppfærður í dag eftir mót helgarinnar á sterkustu mótaröðum heims. Leikið var á LPGA mótaröðinni og voru tveir íslenskir kylfingar meðal keppenda í mótinu.

Valdís Þóra Jónsdóttir, GL, komst í gegnum niðurskurðinn á ISPS Handa mótinu og endaði í 57. sæti. Valdís færist fyrir vikið upp um 20 sæti milli vikna á heimslistanum og er nú kominn í 383. sæti listans.

Ólafía Þórunn færist niður um þrjú sæti milli vikna en hún komst ekki í gegnum niðurskurðinn að þessu sinni. Ólafía situr í 173. sæti heimslistans.

Fáar breytingar urðu á 10 efstu sætum heimslistans en helst ber að nefna að Lydia Ko er ekki lengur í þeim hópi en hún fór niður í 11. sæti. Ko hefur á sínum stutta ferli verið í efsta sæti heimslistans í 104 vikur en árangur hennar hefur ekki verið upp á marga fiska undanfarna mánuði.

Hér er hægt að sjá heimslista kvenna.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is