Heimslisti kvenna: So Yeon Ryu eykur forskot sitt

Nýr heimslisti kvenna var birtur í gær og eru þar nokkrar breytingar á efstu 10 kylfingunum. Helst má nefna að Brooke M. Henderson fellur út af topp 10 listanum og situr nú í 11. sæti, en stutt er síðan hún komst á meðal 10 efstu. Í staðinn kemur Inbee Park inn og situr hún nú í 10. sæti listans.

Shanshan Feng og Ariya Jutanugarn fara báðar upp um eitt sæti og sitja nú í 5. og 6. sæti listans. In Gee Chun fellur hins vegar niður um tvö sæti og er komin í 7. sæti listans.

So Yeon Ryu situr enn sem fastast á toppnum og hefur nú verið þar samfleytt í 16 vikur.

Cristie Kerr, sem sigraði Opna franska mótið nú um helgina stendur í stað og er hún í 14. sæti listans. Xi Yu Lin, sem endaði í 2. sæti, fer hins vegar upp um 30 sæti og situr nú í 156. sæti listans.

Hér má sjá listann í heild sinni.