Heimslisti kvenna: Shanshan Feng komin í efsta sætið

Nýr heimslisti kvenna var birtur í gær og er hin kínverska Shanshan Feng komin á topp listans eftir sigur helgarinnar. Feng stóð uppi sem sigurvegari á Blue Bay LPGA mótinu um helgina og var þetta hennar þriðji sigur á árinu. Hún er eftir árangurinn komin á topp heimslistans og er hún fyrsti kínverski kylfingurinn til þess að afreka það.

Sung Hyun Park, sem var í efsta sæti listans, fer niður um eitt sæti milli vikna. Það sama er að segja um So Yeon Ryu, en hún fer niður í þriðja sæti listans. Aðrar breytingar á 10 efstu konunum eru þær að In Gee Chun og Anna Nordqvist hafa sætaskipti og eru þær nú í fimmta og sjötta sæti listans.

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir fer upp um fimm sæti milli vikna og er eftir ágætan árangur um helgina komin upp í 179. sæti.

Valdís Þóra Jónsdóttir fer upp um 10 sæti og er á nýjum lista í 516. sæti.