Heimslisti kvenna: Ryu komin upp í 5. sæti

Sigurvegari helgarinnar á LPGA mótaröðinni, So Yeon Ryu, er komin upp í 5. sæti heimslistans á nýjum heimslista sem var uppfærður í vikunni. Ryu fer upp um eitt sæti á listanum milli vikna.

Þessi 27 ára gamli kylfingur frá Suður-Kóreu hefur gert frábæra hluti á LPGA mótaröðinni undanfarin ár en hún er nú komin með sex titla á síðustu 8 tímabilum og þar af hefur hún sigrað á tveimur risamótum.

Þess utan urðu engar breytingar á efstu 10 á heimslista kvenna.

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir og Valdís Þóra Jónsdóttir fóru báðar upp milli vikna. Ólafía er nú komin upp í sæti 238 og Valdís situr í 337. sæti.

Hér er hægt að sjá stigalistann í heild sinni.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is