Heimslisti kvenna: Ólafía upp um 103 sæti

Nýr heimslisti kvenna var birtur í gær eftir mót helgarinnar. Einungis ein breyting er á efstu 10 kylfingunum en Lexi Thompson fer upp fyrir Sung Hyun Park og situr hún nú í 2. sæti listans. So Yeon Ryu situr enn sem fastast á toppnum með 8.94 stig. 

Lexi Thompson sigraði á Indy Women in Tech Championship mótinu um síðustu helgi og með þeim árangri nær hún aðeins að saxa á forskot Ryu á toppnum. 

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, atvinnukylfingur úr GR, tekur risastökk upp listann, en hún fer upp um 103 sæti milli vikna. Hún er nú komin á meðal 200 efstu kylfinga í heimi, en hún situr í 197. sæti listans. Stökkið tekur hún eftir að hafa náð frábærum árangri á Indy Women in Tech Championship mótinu um síðustu helgi. Þar endaði hún í 4. sæti og fór þar með langleiðina með að tryggja sér áframhaldandi þátttökurétt á LPGA mótaröðinni á næsta tímabili.

Hér má sjá listann í heild sinni.