Heimslisti karla: Tiger Woods upp um 531 sæti

Nýr heimslisti karla var birtur í gær. Dustin Johnson er sem fyrr í efsta sæti listans og hefur hann nú setið þar í 42 vikur. Ein breyting er á efstu 10 kylfinunum, en Rickie Fowler er kominn upp í sjöunda sæti listans.

Fowler stóð uppi sem sigurvegari á Hero World Challenge mótinu eftir hreint út sagt magnaðan lokahring. Hann lék lokahringinn á 61 höggi, eða 11 höggum undir pari og endaði með að sigra mótið með fjórum höggum. Við sigurinn fer Fowler upp um tvö sæti og er kominn í sjöunda sætið. Brooks Koepka og Henrik Stenson færast við það niður um eitt sæti hvor og eru þeir nú í áttunda og níunda sætinu.

Cameron Smith, sem sigraði á ástralska PGA meistaramótinu, er kominn upp í 61. sæti listans, en hann fer úr 86. sætinu. Smith hefur nú átt tvö mjög góð mót í röð, en hann endaði í fjórða sæti á Opna ástralska mótinu.

Tiger Woods snéri aftur til leiks nú um helgina eins og allir hafa eflaust tekið eftir. Hann lék nokkuð vel í mótinu og endaði jafn í níunda sæti á samtals átta höggum undir pari. Hann fer upp um 531 sæti milli vikna og er nú kominn í 668. sæti listans.