Heimslisti karla: Sigurvegari helgarinnar á meðal 20 efstu

Webb Simpson stóð uppi sem sigurvegari á Players mótinu sem lauk í gær. Mótið er eitt af stærri mótum ársins á PGA mótaröðinni og er oft kallað fimmta risamótið. 

Fyrir um fimm árum var Webb Simpson á meðal efstu manna á heimslistanum, og komst hann hæst í fimmta sætið. Þá hafði hann unnið fjögur mót á þremur tímabilum, þar á meðal Opna bandaríska meistaramótið árið 2012.

Nú rúmlega fimm árum síðar hafði Simpson ekki unnið á PGA mótaröðinni síðan árið 2013 fyrr en í gær þegar að hann stóð uppi sem sigurvegari á Players mótinu. Við sigurinn fer Simpson upp um 21 sæti og situr hann nú í 20. sæti heimslistans. Er þetta í fyrsta skipti síðan í febrúar árið 2014 sem hann er á meðal 20 efstu.