Heimslisti karla: Kodaira kominn upp í 27. sæti

Japaninn Satoshi Kodaira kom, sá og sigraði á móti helgarinnar á PGA mótaröðinni, RBC Heritage. Fyrir vikið er hann kominn upp í 27. sæti heimslistans sem var uppfærður í nótt.

Þrátt fyrir að hafa verið að sigra á sínu fyrsta móti á PGA mótaröðinni er Kodaira reyndur kylfingur og hefur sigrað á sex mótum á japönsku mótaröðinni Japan Golf Tour á undanförnum árum.

Kodaira var til að mynda meðal keppenda á Masters mótinu í byrjun apríl og endaði þar í 28. sæti.

Fyrir RBC Heritage mótið um helgina var Kodaira í 46. sæti heimslistans og fer hann því upp um 19 sæti á milli vikna. Staða hans á listanum í dag er hans besta frá upphafi og má búast við því að þessi 28 ára gamli kylfingur blandi sér oftar í baráttu um sigur á PGA mótaröðinni á næstu misserum.

Engin breyting varð á efstu 10 sætum heimslistans um helgina. Hér er hægt að sjá listann í heild sinni.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is