Heimslisti karla: Justin Thomas og Justin Rose geta komist í efsta sætið um helgina

Eins og greint var frá fyrr í dag komst Justin Thomas með sigri sínum um helgina á Bridgestone Invitational mótinu upp í annað sæti heimslistans. Dustin Johnson er sem fyrr í efsta sætinu og hefur setið þar í samtals 73 vikur.

Efsta sætið er aftur á móti undir um helgina þegar að fjórða og síðasta risamót ársins, PGA meistaramótið fer fram því bæði Justin Thomas og Justin Rose geta með hagstæðum úrslitum komist í efsta sætið.

Thomas var í efsta sætinu í fjórar vikur fyrr á þessu ári og getur komist í efsta sætið að nýju takist honum að sigra. Til þess að það dugi þá þarf Johnson að enda neðar en jafn í öðru sæti ásamt tveimur öðrum. Thomas getur einnig komist í efsta sætið endi hann í öðru sæti en þá þarf Johnson að enda jafn í 18 sæti ásamt einum öðrum eða verra og Justin Rose má ekki að vinna.

Rose kemst í efsta sætið takist honum að sigra mótið og þá þarf Johnson að enda neðar en jafn í sjöunda sæti ásamt einum öðrum kylfingi.

Það þarf því ýmislegt að ganga upp til að þess að þetta verði að veruleika en spennan eykst alltaf örlítið þegar efsta sæti heimslistans er undir.