Heimslisti karla: Justin Thomas kominn í efsta sætið

Nýr heimslisti karla var birtur í morgun eftir að Players mótinu lauk og er nýr kylfingur sem situr í efsta sætinu þessa vikuna. Dustin Johnson var búinn að vera í efsta sætinu í samtals 64 vikur, en það er Justin Thomas sem tekur efsta sætið af honum. 

Það var vitað fyrir Players mótið nú um helgina að fjórir kylfingar ættu möguleika á að taka efsta sætið af Johnson. Kylfingarnir voru þeir Justin Thomas, Jordan Spieth, Jon Rahm og Justin Rose. Dustin Johnson gat aftur á móti haldið efsta sætinu með góðum árangri.

Johnson lék á parinu í gær og endaði mótið jafn í 17. sæti. Á meðan endaði Justin Thomas jafn í 11. sæti, einu höggi á undan Johnson og því ljóst að hann næði efsta sæti heimslistans. Hann er 21. kylfingurinn til þess að komast á topp heimslistans.

Annar kylfingur sem náði nýjum hæðum á heimslistanum er Tommy Fleetwood. Hann er í 10. sæti heimslistans að þessu sinni og hefur hann aldrei verið eins ofarlega.