Heimslisti karla: Fowler fer upp fyrir McIlroy

Bandaríkjamaðurinn Rickie Fowler er kominn upp í 7. sæti heimslistans eftir góða spilamennsku á móti helgarinnar á PGA mótaröðinni, OHL Classic, þar sem hann endaði í öðru sæti. Fowler fer upp fyrir Norður-Írann Rory McIlroy og Svíann Henrik Stenson sem báðir eru fjarri gamni vegna meiðsla.

Rickie Fowler hefur hæst verið í 4. sæti heimslistans en hann hefur verið í og kringum topp-10 listann undanfarin ár.

Sigurvegarar helgarinnar, Patton Kizzire og Branden Grace, taka báðir stökk á uppfærðum heimslista. Kizzire, sem sigraði á OHL Classic, fór upp um 117 sæti og situr nú í 119. sæti listans. Grace, sem sigraði á móti helgarinnar á Evrópumótaröðinni, fór upp um 15 sæti og er nú kominn í 29. sæti.


Branden Grace bar sigur úr býtum á Evrópumótaröðinni um helgina í 8. sinn á ferlinum.

Af íslenskum kylfingum er Axel Bóasson efstur í 442. sæti. Hann er einungis 10 sætum fyrir ofan Birgi Leif Hafþórsson en þeir eru í miklum sérflokki. Haraldur Franklín Magnús er í 820. sæti.

Hér er hægt að sjá heimslistann í heild sinni.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is