Heimslisti karla: Finau kom í veg fyrir að Rose næði efsta sætinu

Justin Rose verður í öðru sæti heimslistans þegar listinn uppfærist á mánudaginn eftir mót helgarinnar á stærstu mótaröðum heims. Þetta varð ljóst í kvöld þegar Hero World Challenge mótið kláraðist.

Ljóst var fyrir mót að tækist Rose að enda jafn í öðru sæti á Bahama eyjum færi hann aftur upp í efsta sæti heimslistans. Eftir glæsilegan lokahring, þar sem Rose lék á 65 höggum, stefndi allt í það þar sem hann var höggi á undan Bandaríkjamanninum Tony Finau og í öðru sæti í mótinu.

Finau vann hins vegar upp tvö högg á síðustu fjórum holunum og endaði einn í öðru sæti. Bandaríkjamaðurinn Brooks Koepka mun því enda árið í efsta sæti heimslistans en þeir Rose hafa skipst á því að verma efsta sæti heimslistans undanfarnar vikur.


Justin Rose.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is