Háskólagolfið: Þrír Íslendingar hófu leik í Minnesota í gær

Þrír íslenskir kylfingar hófu leik í gær á Gopher Invitational mótinu sem er hluti af bandaríska háskólagolfinu. Leikið er hjá Windsong Farm golfklúbbnum í Minnesota. Kylfingarnir sem um ræðir eru Bjarki Pétursson og Gísli Sveinbergsson, sem báðir leika fyrir Kent State skólann, og Rúnar Arnórsson, sem leikur fyrir lið Minnesota.

Leika átti 36 holur í gær, en vegna myrkurs náðu ekki allir að klára allar 36 holurnar. Í dag verða síðustu holurnar kláraðar og þriðji hringurinn leikinn.

Bjarki og Gísli voru einir af þeim fáu kylfingum sem náðu að ljúka við báða hringina. Bjarki lék hringina tvo á 74 og 77 höggum. Hann er því samtals á níu höggum yfir pari og er hann jafn í 61. sæti. Gísli lék hringina á 75 og 71 höggi og er hann samtals á fjórum höggum yfir pari. Hann er jafn í 26. sæti fyrir lokahringinn. 

Rúnar náði aðeins að ljúka við 17 holur á síðari hring gærdagsins. Fyrri hringinn lék hann á 76 höggum og á síðari hringnum var hann á tveimur höggum yfir pari eftir 17 holur. Hann er því samtals á sjö höggum yfir pari og er jafn í 48. sæti.

Lið Kent State er jafnt í 6. sæti á samtals 14 höggum yfir pari á meðan lið Minnesota er jafnt í 8. sæti á 16 höggum yfir pari.

Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.


Rúnar Arnórsson leikur fyrir skólalið University of Minnesota.