Háskólagolfið: Rúnar og félagar unnu báða sína leiki

Rúnar Arnórsson, úr Golfklúbbnum Keili, hóf í gær leik á Big Ten Match Play mótinu, en mótið er hluti af háskólagolfinu í Bandaríkjunum. Rúnar leikur fyrir Háskólann í Minnesota. Eins og nafnið gefur til kynna er þetta holukeppnis mót.

Tvær umferðir voru leiknar í gær og lék lið Rúnars á móti liði háskóla Maryland í fyrstu umferðinni. Rúnar náði sér ekki á strik og tapaði sínum leik 3&2. Það kom þó ekki að sök því Minnesota vann leikinn 3,5-2,5.

Eftir hádegi var Rúnar hvíldur. Minnesota lék þá á móti liði Iowa og endaði sá leikur 4-2 fyrir Minnesota.

Minnesota leikur í dag gegn liði Purdue og leikur Rúnar á móti Cole Bradley. Hægt verður að fylgjast með stöðunni hérna.