Háskólagolfið: Rúnar lauk leik í 38. sæti

Rúnar Arnórsson, afrekskylfingur úr GK, lauk í gær leik á Tiger Invitational, en mótið er hluti af bandaríska háskólagolfinu. Lokahringinn lék hann á 72 höggum, eða parinu, og lauk hann leik jafn í 38. sæti.

Rúnar leikur fyrir Háskólann í Minnesota og endaði lið hans í níunda sæti á samtals 13 höggum yfir pari. Það var lið Auburn sem sigraði, en þeir léku á samtals 25 höggum undir pari.

Á lokahringnum lék Rúnar fremur stöðugt golf. Hann fékk þrjá fugla, þrjá skolla og restina pör. Þetta var besti hringur Rúnars í mótinu, en hann lauk leik á samtals fimm höggum yfir pari.

Lokastöðuna í mótinu má nálgast hérna.