Háskólagolfið: Rúnar fór vel af stað í Iowa

Rúnar Arnórsson, úr Golfklúbbnum Keili, hóf í gær leik á Hawkeye Invitational mótinu, en mótið er hluti af bandaríska háskólagolfinu. Rúnar, sem leikur fyrir Háskólann í Minnesota, lék vel á fyrsta hring mótsins og er jafn í 5. sæti.

Hann hóf leik á sjöttu holu, sem er par 5 hola, og byrjaði hringinn á því að fá fugl. Hann lék par 5 holurnar einstaklega vel, en samtals lék hann þær á fimm höggum undir pari þar sem að hann fékk meðal annars örn á 15. holunni. 

Á hringnum fékk hann einn örn, fjóra fugla, þrjá skolla og restina pör. Hann er því samtals á tveimur höggum undir pari.

Liðsfélgar Rúnars léku einnig vel í gær og er liðið jafnt í þriðja sæti á samtals þremur höggum undir pari. Tveir hringir verða leiknir í dag og lýkur mótinu í kvöld.

Hérna má sjá stöðuna í mótinu.