Háskólagolfið: Góð byrjun hjá Bjarka og Gísla

Bjarki Pétursson og Gísli Sveinbergsson, sem báðir leika fyrir Kent State háskólann, hófu í gær leik á Boilermaker Invitational mótinu. Mótið, sem er hluti af bandaríska háskólagolfinu, fer fram á Kampen golfvellinum í Indíana. Báðir léku þeir vel í gær og eru þeir jafnir í 12. sæti, en leiknar voru 36 holur í gær. 


Bjarki Pétursson.

Bjarki lék fyrri hringinn í gær á 72 höggum, eða parinu. Á hringnum fékk hann fimm fugla, þrjá skolla, einn tvöfaldan skolla og restina pör. Seinni hringinn byrjaði Bjarki með látum og var kominn þrjú högg undir par eftir sex holur. Hann gaf aðeins eftir síðar á hringnum og lauk leik á 73 höggum, eða einu höggi yfir pari.

Gísli lék einstaklega stöðugt golf báða hringina. Á fyrri hringnum fékk hann tvo fugla, einn skolla og restina pör og kom því í hús á 71 höggi. Á síðari hringnum fékk hann tvo fugla, fjóra skolla og restina pör og lék því á 74 höggum.

Þeir eru báðir á einu höggi yfir pari, jafnir í 12. sæti.

Kent State er í efsta sæti ásamt Northwestern háskólanum á samtals þremur höggum undir pari. Lokahringur mótsins fer fram í dag.

Hérna má sjá stöðuna í mótinu.