Háskólagolfið: Bjarki og Gísli tryggðu sér sæti á NCAA Nationals

Bjarki Pétursson (GB), Gísli Sveinbergsson (GK) og liðsfélagar þeirra í Kent State tryggðu sér í dag sæti á stærsta móti ársins í bandaríska háskólagolfinu, NCAA Nationals.

Strákarnir náðu þeim árangri með því að enda í 5. sæti á svæðisúrslitamóti sem fór fram á Reunion golfsvæðinu í Flórída. Leikið var á Watson vellinum á svæðinu.

Gísli lék hringina þrjá samtals á 4 höggum undir pari og endaði í 14. sæti í einstaklingskeppninni. Bjarki lék samtals á 6 höggum yfir pari og endaði í 61. sæti. 

Lið strákanna, Kent State, hafnaði í 5. sæti í liðakeppninni á 20 höggum undir pari sem dugði til þess að tryggja sæti á lokamótinu. Alls komust fimm lið áfram og urðu strákarnir tveimur höggum á undan Arizona háskólanum sem endaði í 6. sæti. 

NCAA Nationals mótið fer fram dagana 25.-30. maí og mæta þar til leiks öll sterkustu lið landsins. Afrekið er því stórt hjá Bjarka og Gísla enda hafa þeir verið nánast undantekningalaust í liði Kent State á þessu tímabili og verið með betri mönnum í liðinu.

Hér er hægt að sjá lokastöðuna í mótinu.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is