Háskólagolfið: Birgir Björn færir sig yfir í Southern Illinois

Birgir Björn Magnússon, GK, mun spila með Southern Illinois háskólanum næsta haust en þetta staðfesti skólinn á heimsíðu sinni í vikunni.

Birgir Björn er á sínu öðru ári hjá Bethany skólanum og hefur náð flottum árangri með golfliði skólans. Meðalskorið hans var til að mynda 72,09 í haust og á þeim tíma endaði hann fjórum sinnum í topp-10.

Farið er fögrum orðum um Birgi á heimasíðu Southern Illinois skólans og benda þeir á að hann sé þriðji efsti íslenski kylfingurinn á heimslista áhugakylfinga.

„Við erum mjög spennt fyrir því að hafa fengið Birgi til okkar þar sem hann getur náð sínum markmiðum,“ segir þjálfari liðsins. „Hann er 1,95m og mikill íþróttamaður sem er með mikinn kylfuhraða. Birgir hefur reynslu af háskólagolfinu og hefur náð árangri á NAIA stiginu og við hlökkum til að sjá hann hafa áhrif á liðið strax.“

Birgir mun hitta klúbbfélaga sinn úr Keili, Vikar Jónasson, í Southern Illinois en Vikar byrjaði að spila fyrir skólann í haust.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is