Haraldur var hrikalega taugaspenntur - viðtal og myndasafn frá OPNA mótinu

„Ég var alveg að farast úr taugaspennu á fyrstu holunum. Það var titringur um allan líkamann og það tók nokkrar holur að jafna sig,“ segir Haraldur Franklín Magnús eftir fyrsta keppnisdaginn á Opna mótinu á Carnoustie vellinum í Skotlandi.

Það er óhætt að segja að byrjunin hafi verið erfið. Fyrsti skollinn af fjórum á fyrri níu holunum kom á 2. þegar upphafshöggið endaði í glompu. „Seinni helmingurinn á fyrri níu var frekar erfiður en svo datt ég í gírinn á seinni níu og þá gekk vel,“ en Haraldur fékk fugl á 10. braut og síðan komu fjórir til viðbótar og þar af frábærir fuglar á tveimur síðustu brautunum. „Pútterinn hitnaði og mér gekk vel á flötunum. Pinnastaðsetningar voru erfiðar á mörgum holum. Þetta var smá vörn hjá mótshöldurum á móti mjög góðum aðstæðum og veðri.“

Hver voru markmiðin á fyrsta keppnisdegi?
„Hitta boltann á fyrsta teig. Ég náði því,“ sagði okkar maður og hló því höggið var ekki mjög gott en Haraldur náði samt pari. „Markmiðið var ekki bara að njóta heldur að keppa. Leikplanið var samt nokkuð varfærið og því lenti ég í því að vera nokkrum sinnum með nokkuð löng innáhögg eftir upphafshögg með járni. Þá miðar maður bara á miðja flöt en minna svona beint á pinnann. Annars held ég að þetta hafi bara endað sem ágætur fyrsti dagur.“

Hvernig leggst næsti keppnisdagur í þig?
„Bara vel. Nú veit ég aðeins betur við hverju er að búast. Ég er með einum sjóðheitum S-Afríkumanni í holli og það var gott. Ég hlakka til,“ sagði okkar maður.

Hér er myndasafn frá fyrsta hring HaraldarHaraldur á fyrsta teig í sínu fyrsta risamóti. Taugarnar voru þandar.

Fyrsti skollinn kom á 2. braut eftir að upphafshöggið endaði í dúpri glompu.

Fyrsti fugl dagsins kom á 10. braut.

Bros eftir fyrsta fuglinn.

Haraldur gengur yfir lækinn á 17. braut. Á flötinni setti hann svo niður 15-16 metra pútt.

Okkar maður fagnar fjórða fugli dagsins á 17. flöt.

Haraldur og Lombard sem er í 2. sæti ganga upp 18. brautina.

Haddi á brúnni yfir lækinn á 18. holu. Sjáið stóra skiltið í baksýn.

Lokapúttið steinlá í holu, glæsilegur fugl.