Haraldur í holli með Lombard og Robinson á Opna mótinu

Haraldur Franklín Magnús hefur leik klukkan 9:53 að íslenskum tíma á fimmtudaginn á Opna mótinu sem fram fer á Carnoustie vellinum í Skotlandi. Haraldur verður þar með fyrsti íslenski karlkylfingurinn til að leika á stórmóti en áður hafa þær Ólafía Þórunn Kristinsdóttir og Valdís Þóra Jónsdóttir keppt á risamótum í kvennagolfinu.

Í holli með Haraldi verða þeir Zander Lombard frá Suður-Afríku og James Robinson frá Englandi. Lombard er fæddur árið 1995 en hann hefur leikið á Evrópumótaröð karla undanfarin ár. Hans besti árangur á Evrópumótaröðinni kom í Ítalíu í fyrra þegar hann sigraði á Rocco Forte Open. Lombard hefur einu sinni áður leikið á Opna mótinu en hann endaði í 66. sæti árið 2016.

Robinson komst inn á Opna mótið í gegnum úrtökumót líkt og Haraldur. Hann lék síðast á Evrópumótaröðinni árið 2016 en náði ekki að halda kortinu það árið. Robinson er að leika í fyrsta skiptið á Opna mótinu.

Önnur holl á Opna mótinu sem helst ber að nefna eru eftirfarandi:

7:03 - Phil Mickelson, Satoshi Kodaira og Rafa Cabrera Bello
8:58 - Justin Rose, Jordan Spieth og Kiradech Aphibarnrat
12:04 - Dustin Johnson, Charley Hoffman og Alex Noren
12:26 - Justin Thomas, Branden Grace og Francesco Molinari
14:21 - Tiger Woods, Russell Knox og Hideki Matsuyama

Hér er hægt að sjá rástíma mótsins.


Zander Lombard.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is