Haraldur Franklín og Þórður Rafn fljúga upp heimslistann

Haraldur Franklín Magnús og Þórður Rafn Gissurarson taka báðir mikið stökk á heimslista karla í golfi sem var uppfærður í dag. Báðir náðu þeir frábærum árangri um helgina og skilaði það sér beint á heimslistann.

Þórður Rafn endaði í öðru sæti á Austerlitz Classic mótinu á 11 höggum undir pari en mótið var hluti af Pro Golf mótaröðinni sem er í þriðja styrkleikaflokki í Evrópu, á eftir Áskorendamótaröðinni og Evrópumótaröðinni. 

Fyrir árangurinn fór Þórður Rafn upp um 713 sæti á heimslistanum. Hann er nú kominn upp í 1214. sæti og er fjórði stigahæsti íslenski atvinnukylfingurinn.

Haraldur Franklín endaði líkt og Þórður í öðru sæti en hann lék í Danmörku á Tinderbox Challenge mótinu. Haraldur lék hringina þrjá á 9 höggum undir pari en hann hefur verið að gera frábæra hluti á Nordic Golf mótaröðinni.

Haraldur Franklín er efsti íslenski kylfingurinn á heimslistanum í karlaflokki. Hann situr nú í 714. sæti eftir að hafa verið í 868. sæti í síðustu viku. Árangur hans er virkilega góður sé tekið mið af því að hann varð einungis atvinnukylfingur í fyrra.


Staða íslenskra atvinnukylfinga á heimslista karla í golfi.

Hér er hægt að sjá heimslistann í heild sinni.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is