Haraldur Franklín í góðum málum fyrir lokahringinn

Atvinnukylfingurinn Haraldur Franklín Magnús, GR, lék í dag þriðja hringinn á 2. stigs úrtökumóti fyrir Evrópumótaröðina á 4 höggum undir pari.

Haraldur Franklín er samtals á 7 höggum undir pari eftir hringina þrjá og í flottum málum en þegar fréttin er skrifuð er jann jafn í 11. sæti af 74 kylfingum. Það getur þó breyst töluvert þar sem flestir kylfingar eiga eftir að klára þriðja hringinn.

Á þriðja hringnum hóf Haraldur leik á 10. teig en hann fékk sína fyrstu fugla á 15. og 16. holu. Á 18. holu sló hann svo í holu og fékk örn en um er að ræða 344 metra langa par 4 holu.

Á seinni níu fékk Haraldur svo tvo fugla og einn skolla og lauk leik á 4 höggum undir pari.

18 efstu kylfingarnir komast áfram á lokaúrtökumótið að fjórum hringjum loknum og þarf Haraldur því að halda uppteknum hætti á lokahringnum.

Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is