Haraldur fer út klukkan 14:54 á öðrum hringnum á Opna mótinu

Atvinnukylfingurinn Haraldur Franklín Magnús er jafn í 50. sæti eftir fyrsta hringinn á Opna mótinu sem fram fer á Carnoustie vellinum í Skotlandi. Haraldur lék fyrsta hringinn á höggi yfir pari og er jafn köppum á borð við Jordan Spieth, Justin Rose og Louis Oosthuizen.

Haraldur var í miklu stuði á seinni níu holunum í gær þar sem hann fékk fimm fugla og tvo skolla.

Í dag fer Haraldur út klukkan 15:54 að staðartíma eða klukkan 14:54 að íslenskum tíma. Hann er aftur í holli með þeim Zander Lombard og James Robinson.

Lombard lék vel á fyrsta hringnum og er jafn í öðru sæti á 4 höggum undir pari. Robinson lék hins vegar ekki jafn vel og kom inn á 4 höggum yfir pari.

Hér verður hægt að fylgjast með skori keppenda í beinni í allan dag en fyrstu menn eru farnir af stað á öðrum hringnum.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is