Haraldur brýtur blað í íslenskri golfsögu | Verður með á Opna mótinu

Atvinnukylfingurinn Haraldur Franklín Magnús tryggði sér í dag sæti á Opna mótinu sem fer fram á Carnoustie í sumar með frábærum árangri í úrtökumóti á Princes golfvellinum. Haraldur verður því fyrsti íslenski karlkylfingurinn í sögunni sem mun leika á einu af risamótunum, en Opna mótið fer fram dagana 19.-22. júlí.

Haraldur Franklín lék hringina tvo í úrtökumótinu fyrir Opna mótið á 2 höggum undir pari og endaði í öðru sæti af 72 keppendum. Alls komust þrír kylfingar áfram af Princes golfvellinum þar sem Haraldur spilaði en auk hans komust þeir Tom Lewis og risameistarinn Retief Goosen áfram.

Vindur var á svæðinu sem gerði kylfingum erfitt fyrir en Haraldur lék vel á hringjunum tveimur og var aldrei í miklum vandræðum. Á öðrum hringnum hóf hann leik á 10. teig og lék hann síðustu 8 holurnar á tveimur höggum undir pari til þess að gulltryggja sæti sitt á risamótinu.

Opna mótið er eitt sögufrægasta mót í heimi en mótið fer fram í 147. skiptið á Carnoustie vellinum 19.-22. júlí næstkomandi. Jordan Spieth hefur titil að verja í mótinu en hann sigraði í fyrra þegar mótið fór fram á Royal Birkdale vellinum.

Hér er hægt að sjá stöðuna í úrtökumótinu.


Hér má sjá Harald bíða eftir að síðustu kylfingarnir luku leik í úrtökumótinu. 

Ísak Jasonarson
isak@vf.is