Haraldur á Carnoustie - 2. hringur í máli og myndum

Haraldur Franlín getur stigið stoltur af stærsta sviði golfs í heiminum þó hann hafi ekki komist í gegnum niðurskurðinn. Hann náði ekki sínu besta golfi í öðrum hringnum og gerði dýr mistök á 5. og 6. braut sem gerði út um vonir hans að komast áfram þrátt fyrir góðan sprett á seinni hringnum. Páll Ketilsson, ritstjóri kylfings.is fylgdi Haraldi allan hringinn og hér má sjá allt það helsta úr honum í myndum og texta.

Annar hringurinn í myndum og texta:Haraldur virtist sultuslakur á 1. teig á 2. degi, ólíkt fyrsta deginum. Fjölskylda og kærasta á áhorfendapöllunum og auðvitað fleiri Íslendingar að fylgjast með. Íslenski fánn kominn á 1. braut. Haraldur sló gott upphafshögg og fékk létt par á fyrstu. Var ekki langt frá því að setja fuglapútt ofan í.Á 2. braut vippaði hann hér um bil ofan í eftir að hafa verið rétt utan flatar og setti rúmlega metra niður fyrir pari.Á 3. braut átti hann gott upphafshögg og innáhöggið kom honum í gott fuglafæri en púttið fór rétt framhjá. Mjög góð byrjun og okkar maður virtist í góðum gír.

Á 4. braut fór innáhöggið í glompu hægra megin við flöt, um 30-40 metra frá stöng. Höggið úr glompunni var nokkuð gott en þó um 4-5 metra frá og hann þurfti því gott pútt ofan í til að bjarga parinu sem okkar maður og gerði. Á parinu eftir fjórar holur.

Fimmta brautin er sú fimmta í röð sem er par 4 á Carnoustie vellinum. Haraldur átti flott upphfshögg og var á besta stað fyrir innáhöggið. Flötin er í talsverðum halla uppímóti.

Aftur var högg með millijárni ekki nógu gott og boltinn endaði til vinstri í stórri glompu vinstra megin. Glompuhöggið var heldur ekki gott og fór yfir flötina.

Hann púttaði þaðan en var alltof laus, átti enn eftir um 7-8 metra pútt niðurí móti. Púttið var gott og fór hérumbil ofan í en endaði um metra fyrir neðan sem Haraldur missti síðan.Þrjú högg töpuð og 7 högg á holuna. Hrikaleg mistök.

Haraldur var greinilega aðeins sleginn út af laginu því fleiri mistök fylgdu í kjölfarið á 6. brautinni sem er par 5. Upphafshöggið með járni var samt í lagi en næsta högg sem hann ætlaði að leggja upp innan við 100 metra frá holu fór lengst til vinstri og út fyrir vallarmörk. Hvað var að gerast? Haddi sló annan bolta sem endaði á flöt og langt pútt fyrir skolla var mjög nálægt því að fara ofan í. Tveir yfir og fimm töpuð högg á tveimur holum.

Ljóst var að okkar maður var kominn í erfiða stöðu en það er mikilvægt að berjast áfram og reyna sem Haraldur gerði. Hann fékk gott par á 7. braut. Gott eftir tvær erfiðar brautir.Áttunda er stutt par 3 hola og Haraldur sló inn á flöt og var í þokkalegu fuglafæri en fékk par.Á níundu holu kom neisti. Haraldur setti langt pútt ofan í fyrir fugli. Eitt högg til baka.Frábært upphafshögg á 10. braut og ágætt högg inn á flöt með fleygjárni af um 100 metra færi. Fuglapúttið rétt framhjá. Létt par.Ellefta er ein af mörgum par 4 holum og þar kom létt par hjá okkar manni.Tólfta holan er strembin og löng par 4. Ágætt upphafshögg en innáhöggið endaði rétt inn á flöt hægra megin um 15-20 metra frá pinna. Haraldur var of stuttur í fyrsta púttinu og hann missti parpúttið. Skolli. Samt gleði í íslenska stuðningshópnum sem fylgdi Hadda hvert fótmál.

Þrettánda holan er örugglega í uppáhaldi hjá Haraldi því hann átti flott innáhögg í fuglafæri. Hann setti niður púttið af öryggi og annar fugl dagsins staðreynd.Fjórtánda er stutt par 5 braut og Haddi fékk fugl þar á fyrsta deginum. Hann sló tvö mjög góð högg og var nálægt því að setja pútt ofan í fyrir erni, tveimur undir en léttur fugl var niðurstaðan. Þriðji fuglinn á sex holum, fjórir yfir í heildina og niðurskurðarlínan við 3 yfir. Okkar maður átt enn góðan séns.Fimmtánda holan er ekki mjög flókin en innáhöggið hjá okkar manni úr karganum endaði vinstra megin við flöt, um 20 metra frá flatarkanti á mjög erfiðum stað. Hér hefði þurfti Mickelson-súpervipp til að bjarga parinu. Haddi sló það ágætlega en boltinn rúllaði þó aðeins yfir flöt. Tvö pútt þaðan og skolli staðreynd.Sextánda holan er ein erfiðasta hola dagsins og Haraldur hitti boltann illa í upphafshögginu, virtist fara í jörðina áður en hann hitti boltann sem endaði í djúpri glompu um 40 metra frá holu. Haraldur þurfti tvö högg upp úr og síðan 2 pútt af löngu færi utan flatar til að enda á 5 höggum, tvöfaldur skolli staðreynd og hér var draumurinn um að komast áfram endanlega búinn.

Upphafshögg Haraldar endaði í læk á 17. braut en næsta högg inn á flöt um 10 metra frá holu. Það pútt setti Haraldur niður og fékk par eftir að hafa þurft að taka víti. Hann setti niður mjög langt pútt á sömu flöt í fyrsta hring og fék fugl.Langt upphafshögg á 18. braut með dræver rúllaði aðeins út í þykkan kargahól. Innáhöggið þaðan var nokkuð erfitt og okkar maður sló yfir flötina. Vippaði þaðan inn á flöt um 1,5 metra frá holu. Hann missti púttið og lék á skolla. Endaði á 7 yfir pari, 78 högg en var á 72 fyrsta daginn.

Haraldur hitti 67% af brautum í hringnum en aðeins 44% í tilskildum höggafjölda á flöt. Drævlengd 250 metrar að meðaltali á hringnum. Púttin voru 29.

Í fyrri hringnum voru tölurnar mun betri og skýra vissulega muninn á skorinu. Hann hitti 60% af brautum og 56% af flötum í tilskildum höggafjölda. Meðaltals drævlengd var 305 metrar á fyrri hringnum sem er nokkuð magnað. Lengsta höggið hans var á 6. braut sem var um 320 metrar.