Guðrún endaði tímabilið í 69. sæti á LET Access

Guðrún Brá Björgvinsdóttir, GK, náði í dag sínum besta árangri á LET Access mótaröð kvenna þegar hún endaði í 17. sæti á lokamóti tímabilsins í Barselóna.

LET Access er næst sterkasta mótaröð kvenna, sambærileg við Áskorendamótaröðina í karlaflokki, og fá efstu kylfingar stigalistans keppnisrétt á Evrópumótaröð kvenna.

Guðrún Brá lék í 12 mótum á tímabilinu og endaði í 69. sæti á stigalista mótaraðarinnar. Alls þénaði hún 4.258 evrur í mótunum en hún komst sex sinnum í gegnum niðurskurðinn. Þetta er fyrsta ár Guðrúnar sem atvinnukylfingur


Guðrún Brá komst í gegnum niðurskurðinn á sex mótum á tímabilinu.

Framundan hjá Guðrúnu Brá er lokaúrtökumótið fyrir Evrópumótaröð kvenna sem fer fram dagana 16.-20. desember. Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, GR, og Valdís Þóra Jónsdóttir, GL, eru báðar með keppnisrétt á þeirri mótaröð.

Hér er hægt að sjá lokastöðuna í mótinu.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is