Guðrún Brá komst áfram á Opna breska áhugamannamótinu

Guðrún Brá Björgvinsdóttir, afrekskylfingur úr Golfklúbbnum Keili, komst áfram í holukeppnina á Opna breska áhugamannamótinu sem fram fer í Wales. Guðrún Brá lék hringina tvo í höggleiknum á tveimur höggum yfir pari og endaði í 13. sæti. Paula Grant lék best allra í höggleiknum eða á 4 höggum undir pari.

Leikfyrirkomulagið í mótinu er með þeim hætti að fyrstu tvo hringina fór fram höggleikur og komust 64 kylfingar áfram. Næstu þrjá daga fer fram holukeppni þangað til einn kylfingur stendur uppi sem sigurvegari á laugardaginn.

Guðrún Brá lék glæsilegt golf á öðrum hringnum í dag og kom inn á höggi undir pari. Með hringnum kom hún sér upp um 47 sæti á milli hringja og var í 13. sæti þegar dregið var í holukeppnina, samtals á tveimur höggum yfir pari.

Á morgun, fimmtudag, hefst holukeppnin og leikur Guðrún Brá við hollenskan kylfing, Romy Meekers, sem endaði í 52. sæti í höggleiknum.

Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is