Guðrún Brá í 16. sæti fyrir lokahringinn í Marokkó

Atvinnukylfingurinn Guðrún Brá Björgvinsdóttir, GK, lék þriðja hringinn á 1. stigs úrtökumóti fyrir Evrópumótaröðina á 71 höggi eða höggi undir pari. Leikið er á PalmGolf Marrakesh golfvellinum í Marokkó en lokahringur mótsins fer fram á sunnudaginn.

Guðrún Brá var á tveimur höggum yfir pari eftir fyrri níu í dag en hún lék flott golf á seinni níu þar sem hún fékk þrjá fugla og sex pör.

Fyrir lokahringinn er Guðrún Brá jöfn í 16. sæti af 66 kylfingum en 25 efstu kylfingarnir komast áfram á lokaúrtökumótið að fjórum hringjum loknum.

Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is