Guðmundur Ágúst í 2. sæti á Nordic Golf mótaröðinni

Atvinnukylfingarnir Guðmundur Ágúst Kristjánsson, Haraldur Franklín Magnús og Andri Þór Björnsson hófu í dag leik á Fjallbacka Open mótinu sem er hluti af Nordic Golf mótaröðinni. Um er að ræða áttunda mót tímabilsins en leikið er í Svíþjóð að þessu sinni.

Guðmundur Ágúst fór frábærlega af stað í mótinu og er jafn í 2. sæti eftir fyrsta hringinn á fjórum höggum undir pari. GR-ingurinn var ekkert að flækja hlutina en hann fékk fjóra fugla og tapaði ekki höggi á hringnum. Skorkortið hans má sjá hér fyrir neðan.

Haraldur Franklín og Andri Þór eru enn úti á velli og eiga þeir báðir þrjár holur eftir af fyrsta hring. Þegar fréttin er skrifuð er Haraldur á pari vallarins í 24. sæti og Andri á þremur höggum yfir pari í 79. sæti.

Alls eru leiknir þrír hringir í mótinu sem lýkur á laugardaginn. Eftir tvo hringi verður skorið niður og komast þá 45 efstu kylfingarnir áfram.

Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.


Haraldur Franklín Magnús.


Andri Þór Björnsson.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is