Golfklúbburinn Keilir Íslandsmeistari klúbba í fyrstu deild karla

Fyrstu deild karla í Íslandsmóti golfklúbba lauk í dag á Akranesi. Það var sveit Golfklúbbsins Keilis sem stóð uppi sem sigurvegari eftir spennandi leik við Golfklúbb Mosfellsbæjar. Það var svo sveit Golfklúbbs Reykjavíkur sem hafnaði í þriðja sæti.

Tveir fjórmenningsleikir og þrír tvímenningsleikir voru leiknir. Nokkur einstefna var í fyrri fjórmenningsleiknum af hálfu Keilismanna og enduðu þeir á að sigra hann 8/6. Síðari fjórmenningsleikurinn var öllu jafnari og fór hann alla leið á 18. holu en lauk honum með sigri Mosfellsbæjar.

Björn Óskar Guðjónsson, GM, sigraði sinn tvímenning 2/1 en það voru svo þeir Gísli Sveinbergsson og Rúnar Arnórsson sem sigruðu sína leiki fyrir GK 4/3 og lauk því leiknum 3-2. Þetta var 15. skiptið sem Keilir hampar þessum titli.

Í leiknum um þriðja sætið lék GR á móti sveit Golfklúbbs Kópavogs og Garðabæjar. Mikil spenna var í öllum leikjum en svo fór að lokum að GR sigraði 3-2.

Það var sveit Golfklúbbs Setbergs sem fellur um deild og leika því í annarri deild að ári.

Öll nánari úrslit úr mótinu má sjá hérna.