Golfklúbbur Reykjavíkur fagnaði sigri í Íslandsmóti golfklúbba í fyrstu deild kvenna

Golfklúbbur Reykjavíkur fagnaði í dag sigri í Íslandsmóti Golfklúbba í 20. sinn eftir sigur á móti heimastúlkum í Golfklúbbnum Keili. Úrslitaleikurinn var æsispennandi en svo fór að lokum að GR sigraði 3-2.

Að vanda var einn fjórmenningsleikur og fjórir tvímenningsleikir. GR hafði betur í fjórmenningnum. Keilir sigraði tvo af tvímenningsleikjunum nokkuð örugglega, 4/3 og 5/4. Hinir tveir leikirnir fóru aftur á móti á 17. og 18. holu og féllu báðir GR í vil og unnu þær því leikinn 3-2.

Þetta var í 20. skiptið sem GR vinnur mótið en þær hafa nú sigrað fjögur ár í röð.

Í leiknum um þriðja sætið lék Golfklúbbur Kópavogs og Garðabæjar á móti Golfklúbbi Mosfellsbæjar. Leikurinn endaði þannig að GKG hafði betur 3-2.

Úrslit allra leikja má sjá hérna.