Góð veðurspá fyrir Opna bandaríska meistaramótið

Það er fátt sem kemst að í golfheiminum annað en annað risamót ársins, Opna bandaríska meistaramótið. Mikið hefur verið rætt um hvernig völlurinn verður þessa vikuna en leikið er á Shinnecock Hills vellinum.

Síðast þegar mótið fór fram á vellinum árið 2004 lentu stjórnendur mótsins í vandræðum á lokadeginum þar sem völlurinn var orðinn nánast óleikfær. Grípa þurfti til að vökva einhverjar flatir milli ráshópa vegna þess hversu harðar og hraðar flatirnir voru orðnar.

Menn hafa því mikið spáð í veðrinu og ætla reyna að fyrirbyggja að sama gerist og árið 2004. Veðurspáin fyrir helgina virðist vera nokkuð góð. 

Smá rigning er á svæðinu í dag og því mun það eflaust auka vöxt kargans eitthvað en mikill er hann fyrir.

Fimmtudagurinn, opnunardagur mótsins, á að vera hlýjasti dagurinn en hitinn á að ná allt að 26 gráðum og verður töluverður vindur seinni partinn. Völlurinn ætti því að verða þurr, harður og hraður strax frá fyrsta degi.

Veðurspáin fyrir hina þrjá dagana er mjög svipuð þar sem hiti verður á bilinu 21 til 24 gráður og smá vindur alla dagana.

Það er vonandi að leikmenn og stjórendur mótsins lendi ekki í því sama og árið 2004.